Ensk lið slást um bakvörð Kostaríku

Cristian Gamboa, til hægri, í leik Kostaríku og Hollands á …
Cristian Gamboa, til hægri, í leik Kostaríku og Hollands á HM. AFP

Ensku úrvalsdeildarliðin West Bromwich Albion og Hull City eru komin í slag um Cristian Gamboa, varnarmann landsliðs Kostaríku og leikmann Rosenborg í Noregi, samkvæmt BBC.

Gamboa lék alla fimm leiki Kostaríku á HM í Brasilíu sem hægri bakvörður en liðið tapaði ekki leik, fékk aðeins tvö mörk á sig, og féll út í vítaspyrnukeppni gegn Hollendingum í átta liða úrslitunum.

BBC segir að West Brom hafi verið langt komið með að kaupa Gamboa af norska liðinu fyrir tvær milljónir punda en Hull væri nú búið að blanda sér í slaginn og vill fá leikmanninn í sínar raðir.

Gamboa er 24 ára gamall og hefur leikið í Noregi frá árinu 2010 þar sem hann spilaði fyrst með Fredrikstad en er nú á sínu þriðja tímabili með Rosenborg. Í millitíðinni fór hann til FC Köbenhavn í Danmörku en fékk ekki tækifæri þar og hafði skamma viðdvöl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert