Cole ósáttur með hugarfarið hjá Liverpool

Joe Cole í búningi Liverpool á sínum tíma.
Joe Cole í búningi Liverpool á sínum tíma. AFP

Enski miðjumaðurinn Joe Cole hefur stigið fram og tjáð sig um veru sína hjá Liverpool, en hann gekk í raðir liðsins frá Chelsea árið 2010. Hann náði hins vegar ekki að festa sig í sessi, var lánaður til Frakklands áður en hann fór frá félaginu og er nú á mála hjá Aston Villa.

Cole átti góðu gengi að fanga hjá Chelsea og Steven Gerrard líkti honum við Lionel Messi þegar hann gekk til liðs við Liverpool, en Cole segir að hugarfarið hjá félaginu hafi truflað sig mikið.

„Þegar ég kom, þá fór ég í viðtal þar sem mér var tjáð að ég hefði gengið til liðs við stærsta félag á Englandi og gaurinn taldi upp fyrir mig alla titlana sem liðið hefur unnið í sögunni. Ég sagði: „Já, það hlýtur að vera þegar þú segir það svona,“ og þeir notuðu það í fyrirsögn,“ sagði Cole.

„Ég vildi ekki valda uppnámi og lét það þess vegna vera, en þetta var augljóslega ekki stærsta félagið í landinu lengur. Hvernig meturðu hversu stórt félagið er? Nottingham Forest vann Evrópukeppnina tvisvar en þeir eru ekki stærri en Chelsea,“ sagði Cole.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert