9,6 milljarðar frá Liverpool til Southampton

Dejan Lovren er nýjasti leikmaður Liverpool. Hann er sá þriðji …
Dejan Lovren er nýjasti leikmaður Liverpool. Hann er sá þriðji sem Liverpool kaupir frá Southampton í sumar. Ljósmynd/LiverpoolFC.tv

Eftir að gengið var frá kaupum enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool á króatíska miðverðinum Dejan Lovren frá Southamtpon í gær, hefur Liverpool nú greitt Southampton 49 milljónir punda fyrir þrjá leikmenn í sumar ef fregnir af kaupverði reynast réttar.

Talið er að Liverpool hafi greitt 4 milljónir punda fyrir framherjann Rickie Lambert frá Southampton fyrr í sumar og svo 25 milljónir punda fyrir Adam Lallana áður en Lovren var keyptur í gær, en fyrir hann greiðir Liverpool líklega 20 milljónir. Samtals hefur Liverpool því líklega greitt 49 milljónir punda fyrir leikmennina þrjá í sumar sem samsvarar 9,6 milljörðum íslenskra króna.

Möguleiki er á að fjórði Southampton-leikmaðurinn bætist við í herbúðir Liverpool í sumar, því í gær var framherjinn Jay Rodriguez orðaður við Liverpool eftir að Frakkinn Loic Remy féll á læknisskoðun og Liverpool hætti við að kaupa hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert