Rodgers staðfestir fráhvarf Remy

Brendan Rodgers ásamt lærisveinum sínum á undirbúningstímabilinu.
Brendan Rodgers ásamt lærisveinum sínum á undirbúningstímabilinu. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti eftir 1:0-sigur liðsins á Olympiacos í vináttuleik í gær að liðið hefði hætt við að fá franska framherjann Loic Rémy til liðs við sig frá QPR.

Eins og kom fram á mbl.is í gær var allt klappað og klárt fyrir félagaskiptin, kaupverðið var um 8,5 milljónir punda og Rémy átti að fá treyju númer sjö, en féll hins vegar á læknisskoðun og þá hætti Liverpool snarlega við.

„Við ákváðum að hætta við kaupin, svo einfalt er það. Þetta er leiðinlegt fyrir leikmanninn og við erum augljóslega vonsviknir, en svona er þetta. Við förum nú að huga að öðrum leikmönnum,“ sagði Rodgers.

Raheem Sterling skoraði sigurmarkið í gær og Rodgers var ánægður með framlínu sína þar sem Sterling, Daniel Sturridge og Lazar Markovic sem kom fyrr í sumar virkuðu vel saman. „Daniel fékk aukið sjálfstraust á heimsmeistaramótinu, Markovic verður einungis betri og betri og það er alltaf ógn í Raheem og gaman að fylgjast með honum. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur,“ sagði Rodgers sem var að sjálfsögðu spurður hvernig liðið kæmist af án Luis Suárez.

„Luis Suárez er ekki leikmaður Liverpool, svo ég þarf ekkert að minnast á hann. Ég þarf bara að hugsa um þá leikmenn sem ég hef, sem sýndu í nógu mörgum leikjum á síðustu tímabilum að þeir geta skorað mörk þó Suárez sé ekki með, svo það verður ekki vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert