Gerrard: Verstu mánuðir lífs míns

Steven Gerrard mun seint gleyma því þegar hann rann til …
Steven Gerrard mun seint gleyma því þegar hann rann til í leiknum mikilvæga við Chelsea síðasta vor. AFP

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool og enska landsliðsins segir að síðustu þrír mánuðir hafi verið þeir verstu sem hann hafi upplifað.

Liverpool var afar nálægt því að landa Englandsmeistaratitlinum síðasta vor en 2:0-tap gegn Chelsea á Anfield reyndist dýrkeypt. Þar gerðist Gerrard sekur um slæm mistök þegar hann rann til og gaf Demba Ba færi á að skora fyrra mark Chelsea. Í sumar var Gerrard svo með enska landsliðinu í Brasilíu þar sem það féll úr leik strax í riðlakeppninni.

„Þetta hafa örugglega verið þrír verstu mánuðir ævi minnar,“ sagði Gerrard við bandaríska fjölmiðla og vísaði sérstaklega til þess þegar hann rann til í leiknum gegn Chelsea.

„Ég er búinn að sjá þetta nokkrum sinnum en ég þarf ekkert að horfa á svona lagað til að upplifa sársaukann aftur og aftur og aftur. Ég er búinn að finna fyrir sársaukanum í búningsklefanum eftir leik, og vikurnar og mánuðina sem liðið hafa síðan. En ég komst ekki hjá því að sjá þetta. Ég er með sjónvörp á heimilinu og ég les blöðin. Svo eru það samfélagsmiðlarnir. Þegar svona lagað gerist þarf maður að geta tekið því. Sætta sig við að svona gerist. Það er ekki hægt að breyta því,“ sagði Gerrard.

„Það var ekki þannig að ég gleymdi að dekka manninn minn í föstu leikatriði. Ég klúðraði ekki víti og átti ekki slæma sendingu eða gerði mistök. Þess vegna er þetta svo sárt. Það hafa allir í heiminum runnið til einhvern tímann á lífsleiðinni. Hjá mér gerðist það á afar slæmum tímapunkti,“ sagði Gerrard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert