Joel Campbell vill sanna sig hjá Arsenal

Joel Campbell sló í gegn á HM.
Joel Campbell sló í gegn á HM. AFP

Joel Campbell, framherjinn ungi sem sló í gegn með liði Kostaríku á heimsmeistaramótinu í Brasilíu, vill ekki fara enn eitt árið á láni frá Arsenal. Honum finnst tími til kominn að hann fái að sanna sig í ensku úrvalsdeildinni.

Campbell hefur verið sendur á láni síðustu þrjú tímabil, nú síðast til Olympiakos í Grikklandi, en hann gekk í raðir Lundúnaliðsins árið 2011 og á enn eftir að spila sinn fyrsta leik. Enska liðið hefur þó neyðst til að lána hann þar sem vandræði hafa verið að fá atvinnuleyfi fyrir hann.

Hann hefur verið orðaður við AC Milan og Galatasaray, en sjálfur finnst honum tími til kominn að fá að sanna sig. „Enska úrvalsdeildin er sú mest spennandi í heimi og mig hefur alltaf langað að spila hér. Það er minn draumur og ég trúi því að ég sé nógu góður til þess,“ sagði Campbell.

„Ég hef spilað meira en 100 leiki í þremur mismunandi deildum Evrópu, Lorient í Frakklandi, Real Betis á Spáni og Olympiakos í Grikklandi, þar sem ég var líka í Meistaradeildinni.Ég hef fulla trú á að ég hafi það sem þarf í hvaða deild sem er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert