Van Gaal lét setja upp myndavélakerfi á æfingasvæðinu

Louis Van Gaal lét gera miklar breytingar á æfingasvæði Manchester …
Louis Van Gaal lét gera miklar breytingar á æfingasvæði Manchester United í von um betri árangur í vetur. AFP

Þegar leikmenn Manchester United æfa á æfingasvæði sínu í Carrington er nú hver einasta hreyfing þeirra tekin upp á myndband svo knattspyrnustjórinn Louis van Gaal geti greint sem ítarlegast hvað sé vel gert og hvað megi betur fara.

Komið hefur verið upp háskerpumyndavélakerfi á æfingasvæðinu að ósk Hollendingsins sem virðist ýmsu vilja breyta. Hann hefur einnig breytt því hvenær matmálstímar eru og skipt ferköntuðum borðum í matsalnum út fyrir hringlaga til að fá leikmenn til að tala meira saman. Hann fer jafnframt fram á að leikmenn tali saman á ensku.

Ekki lengur nóg að vinna leiki

„Þetta er orðið mikið nákvæmara á æfingasvæðinu. Það er búið að eyða þúsundum [punda] í svæðið og strákarnir hafa séð HD-myndavélar í kringum völlinn. Núna getur hann [van Gaal] fylgst með öllu sem við gerum á vellinum. Ég held að mörg lið noti þetta en við förum mjög nákvæmlega í þetta,“ sagði Jonny Evans, miðvörður United.

„Hann segir kannski við okkur að við ættum að vera fimm metrum lengra til hægri, og við sjáum núna hvað er að gerast á vellinum. Þetta er nýtt fyrir okkur öllum, áður fyrr var nóg að vinna leiki og þá voru allir sáttir,“ sagði Evans.

„David Moyes notaði myndbönd mikið svo við kynntumst því svolítið á síðasta ári. Núna skoðum við hlutina af meiri nákvæmni. Þannig vill hann hafa þetta. Núna skiptir allt máli, hvort sem það er hvaða fötum maður klæðist eða á hvaða tímum dagsins maður nærist. Hann er fljótur að hrósa manni þegar maður gerir vel en líka fljótur að láta vita ef eitthvað klikkar,“ sagði Evans um stjórann sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert