Hodgson stefnir á Evrópumeistaratitil

Roy Hodgson setur stefnuna hátt með England.
Roy Hodgson setur stefnuna hátt með England. AFP

Roy Hodgson, landsliðseinvaldur Englands, segist vera búinn að komast yfir vonbrigðin frá heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í sumar, þar sem England endaði á botni síns riðils. Hann setur markið hins vegar hátt og stefnir á Evrópumeistaratitil eftir tvö ár.

„England fer aldrei á stórmót án þess að stefna á að vinna þau. Það verða sterkari lið í vegi okkar, en við vitum hvað þarf að gera til að vinna. Við ætlum að skipuleggja okkur vel og hjálpa leikmönnunum að ná upp sjálfstrausti,“ sagði Hodgson, sem er bjartsýnn á framtíðina.

„Sem þjálfari vonastu alltaf eftir því að það besta eigi eftir að koma. Það er hættulegt að hugsa of mikið um fortíðina því staðreyndin er að það er svo mikið framundan sem hægt er að hlakka til,“ sagði Hodgson og vonast til að ungir leikmenn eins og Daniel Sturridge og Raheem Sterling geti fyllt skarð manna á borð við Steven Gerrard og Ashley Cole.

„Ég vona að þeir leikmenn sem fara á Evrópumótið 2016, gefið að við komumst þangað, verði tilbúnari í slaginn en þeir eru núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert