Arsenal og Manchester City mættust í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar í dag og lauk leik þeirra með fjörugu 2:2 jafntefli.
Arsenal-menn hófu leikinn af krafti og með nýjan framherja sinn frá Manchester, Danny Welbeck í framlínunni voru þeir ógnandi en Welbeck var hársbreidd frá því að skora í sínum fyrsta leik fyrir félagið en vippa hans yfir Joe Hart í markinu fór í stöngina.
Á 28. mínútu dró til tíðinda. Arsenal missti boltann á slæmum stað á miðjunni og ljósbláir City-menn brunuðu í skyndisókn sem endaði með marki Argentínumannsins magnaða Sergio Agüero sem skoraði sitt þriðja mark á leiktíðinni. Athygli vakti að hann Frank Lampard hóf leikinn í byrjunarliði Manchester City en hann fór af velli í hálfleik.
Arsenal-menn komu sterkir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru tvö mörk. Englendingurinn Jack Wilshere jafnaði metin á 64. mínútu eftir gott spil Arsenal þar sem hann skoraði að lokum úr þröngu færi. Sílemaðurinn í liði Arsenal, Alexis Sánchez kom svo Lundúnarliðinu yfir á 74. mínútu með frábærri afgreiðslu í fjærhornið þar sem Joe Hart í marki City átti ekki möguleika.
Manchester City gafst hins vegar ekki upp og uppskar jöfnunarmark á 83. mínútu þegar varnarmaðurinn Martin Demichelis skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Þar við sat og urðu lokatölur 2:2.