Andstæðingar Liverpool hafa risið hratt upp

Steven Gerrard og félagar á æfingu í aðdraganda leiksins við …
Steven Gerrard og félagar á æfingu í aðdraganda leiksins við Ludogorets. AFP

Andstæðingur Liverpool í fyrsta leik liðsins í Meistaradeild Evrópu um árabil er sennilega ekki mjög þekktur, enda hefur hið búlgarska lið Ludogorets Razgrad risið hratt upp.

Luodogorets vann sér sæti í efstu deild Búlgaríu árið 2011 en þrátt fyrir það hefur liðið orðið búlgarskur meistari síðustu þrjú ár. Á síðasta tímabili endaði liðið með 12 stiga forskot á gamla stórveldið CSKA Sofia. Þar að auki hefur Ludogorets í tvígang unnið bikarkeppnina í Búlgaríu á síðustu þremur árum, en liðið tók tvennuna á síðasta tímabili.

Ludogorets komst í riðlakeppnina með ótrúlegum hætti en liðið vann Partizan Belgrade í umspili eftir vítaspyrnukeppni. Varnarmaðurinn Cosmin Moti stóð í marki liðsins í vítaspyrnukeppninnni og varði tvær spyrnur.

Ludogorets hefur spilað 14 leiki í Evrópukeppni, unnið fimm, gert fjögur jafntefli og tapað fimm. Stærsti sigur liðsins í Evrópukeppni kom í forkeppni Meistaradeildarinnar í sumar, þegar liðið vann Dudelange frá Lúxemborg 4:0. Stærsta tapið kom í fyrra þegar liðið tapaði 3:0 fyrir Valencia. Ludogorets fékk aðeins fjögur mörk á sig í sex leikjum í forkeppni Meistaradeildarinnar í ár.

Á síðustu leiktíð náði Ludogorets að komast í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar eftir að hafa endað í efsta sæti síns riðils, fyrir ofan Chernomorets, PSV Eindhoven og Dinamo Zagreb.

Ludogorets verður 120. liðið sem Liverpool mætir í Evrópukeppni, og fyrsti andstæðingur liðsins í Meistaradeildinni í 1.742 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert