Flamini bakvörður gegn Dortmund?

Mathieu Flamini og félagar eiga erfiðan leik fyrir höndum.
Mathieu Flamini og félagar eiga erfiðan leik fyrir höndum. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal gæti neyðst til að tefla miðjumanninum Mathieu Flamini fram sem hægri bakverði í stórleiknum gegn Dortmund í Þýskalandi í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Meiðsli hrjá marga varnarmenn Arsenal en aðeins 3 reyndir varnarmenn eru heilir heilsu, auk þess sem hinn 19 ára gamli hægri bakvörður Héctor Bellerín ferðaðist með liðinu til Þýskalands. Bellerín hefur aðeins einu sinni komið inná sem varamaður í leik í deildabikarnum og verður tæplega treyst í svo mikilvægan leik sem framundan er.

Þeir Per Mertesacker, Laurent Koscielny og Kieran Gibbs eru heilir heilsu en Gibbs er reyndar frekar nýlega kominn af stað eftir meiðsli. Mathieu Debuchy verður frá næstu 2-3 mánuðina eftir að hafa meiðst í ökkla gegn Manchester City á laugardaginn, og Nacho Monreal er meiddur í baki. Þá er hinn 19 ára gamli Calum Chambers búinn að vera veikur og æfði ekki í gær en vonast er til að hann geti spilað. Wenger segir helmingslíkur á því. Nái hann ekki að spila er Flamini talinn líklegastur til að fylla skarðið í vörninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert