Gutiérrez með eistnakrabbamein

Jonás Gutiérrez er mikils metinn hjá stuðningsmönnum Newcastle fyrir sinn …
Jonás Gutiérrez er mikils metinn hjá stuðningsmönnum Newcastle fyrir sinn þátt í að koma liðinu aftur upp í úrvalsdeild á sínum tíma. AFP

Jonás Gutiérrez, kantmaður Newcastle, hefur greinst með krabbamein í eista og er farinn heim til Argentínu þar sem hann mun gangast undir lyfjameðferð.

„Þegar mér var tjáð að ég væri með krabbamein fór ég grátandi heim. Í maí 2013 fann ég fyrir miklum sársauka í eistunum. Eftir að hafa fengið ranga greiningu kom æxlið í ljós í ómskoðun,“ sagði Gutiérrez sem ákvað sjálfur að fara í meðferð við krabbameininu í Argentínu, í stað þess að vera áfram í Bretlandi.

„Ég kom hingað og tók því á mig allan kostnað þrátt fyrir að ég sé með samning við Newcastle. Peningar skipta ekki máli. Þetta snýst um heilsu mína. Ég varð að hefja lyfjameðferð strax,“ sagði Gutiérrez.

Gutiérrez á að baki 22 landsleiki fyrir Argentínu og hann segist hafa fengið góða aðstoð frá félögum sínum þar.

„Þetta er erfiðasti leikur sem ég hef spilað. Maður fer að hugsa um mikilvægari hluti þegar svona vandamál kemur upp. Sumir hafa veitt mér mikinn styrk, eins og til dæmis [Gabriel] Heinze. Eftir aðgerð sagði ég [Ezequiel] Lavezzi, [Martin] Demichelis og [Fabricio] Coloccini frá þessu. Við Coloccini erum mjög nánir. Við höfum spilað saman hjá Newcastle í 6 ár og hann er duglegur að hringja í mig. Hann er nánast eins og fjölskyldumeðlimur,“ sagði Gutiérrez.

„Ég ákvað að segja frá þessu því að þetta er erfiður tími, en þetta er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta gæti hjálpað öðrum,“ sagði Gutiérrez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert