Man. Utd hafði ekki efni á okkar mönnum

Pep Guardiola stýrir Bayern München í stórleik gegn Manchester City …
Pep Guardiola stýrir Bayern München í stórleik gegn Manchester City í kvöld. AFP

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Bayern München segir að liðið muni spila samkvæmt sömu hugmyndafræði og áður í Meistaradeild Evrópu í vetur þrátt fyrir háðulega útreið gegn Real Madrid í undanúrslitum keppninnar í vor.

Þýsku meistararnir töpuðu 4:0 á heimavelli í síðari leik sínum við Real og féllu þar með úr leik. Nú, fimm mánuðum síðar, mæta þeir aftur til leiks í Meistaradeildinni gegn Englandsmeisturum Manchester City í kvöld. Guardiola segir að Bæjarar muni spila með sama hætti og á síðustu leiktíð.

„Þetta breytir engu um mína hugmyndafræði. Ekkert hefur breyst. Þegar við spiluðum í Madrid lékum við okkar leik mjög vel. En á heimavelli lékum við illa og höfðum ekki stjórn á Cristiano Ronaldo, Karim Benzema, Ángel di María og Gareth Bale í skyndisóknum þeirra. Það er þeirra aðferð. Það er þeirra styrkleiki en við fórum í undanúrslitin og Bayern kemst alltaf þangað,“ sagði Guardiola.

„Árið áður vann Bayern þrjá titla, og á síðasta tímabili tvo titla. Fólk verður að skilja að svona er þetta ekki bara í fótbolta heldur í körfubolta, tennis, golfi, í raun öllum íþróttum. Maður verður stundum að tapa stórt. Það er hluti leiksins og í lífinu verður maður að kunna að vinna og tapa og halda svo áfram,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi.

Staða Man. Utd víti til varnaðar

Bayern er vissulega eitt af sigurstranglegustu liðunum í Meistaradeildinni í vetur en Guardiola segir mikilvægt að hafa í huga að það sé ekkert sjálfsagt að spila í Meistaradeildinni, og tók Manchester United sem dæmi, en enska liðið leikur ekki í keppninni í vetur.

„Það er góð lexía fyrir stærstu félögin. Þeir hugsuðu með sér „við erum ósigrandi og sterkir“ en svo eru þeir ekki í keppninni, og kannski ekki heldur á næsta tímabili. Þetta er það magnaða við fótboltann. Maður þarf að vera klár í slaginn í hverri viku. Einn slæmur hálfleikur getur eyðilagt fyrir manni,“ sagði Guardiola.

Spánverjinn var jafnframt spurður út í mikla eyðslu United í sumar, og hvort að hann hefði ekki oft þurft að segja nei við sinn gamla læriföður Louis van Gaal.

„Þeir áttu ekki nægilega mikinn pening,“ sagði Guardiola. „Ég sá að þeir eyddu háum fjárhæðum og það er gott fyrir Louis vin minn. Það er hluti af leiknum. Öll félög í heiminum vilja leikmenn úr öðrum félögum, en þetta veltur á leikmanninum. Ef hann vill spila þá spilar hann, og ef hann vill halda kyrru fyrir þá gerir hann það. Manchester vill fá svoleiðis leikmenn,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert