Fernandinho: Verðum að vinna Chelsea

Xabi Alonso brýtur á Fernandinho í leik Bayern München og …
Xabi Alonso brýtur á Fernandinho í leik Bayern München og Manchester City í München á miðvikudagskvöld. AFP

Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er án nokkurs vafa viðureign Englandsmeistara Manchester City og toppliðs Chelsea á sunnudaginn. Fernandinho, miðjumaður City, segir það afar mikilvægt að City stöðvi lærisveina José Mourinho.

„Þeir hafa byrjað mjög vel. Nýju leikmennirnir þeirra hafa sýnt hæfileika sína. Þetta verður frábær leikur. Við erum með gott lið sömuleiðis og spilum fyrir framan okkar stuðningsmenn á heimavelli. Vonandi förum við með sigur af hólmi,“ sagði Fernandinho við The Guardian.

Chelsea hefur unnið alla fjóra leiki sína til þessa í deildinni en gerði jafntefli við Schalke á heimavelli í Meistaradeildinni á miðvikudag, á sama tíma og City tapaði fyrir Bayern München í Þýskalandi.

„Í úrvalsdeildinni er mikilvægast að gefa ekki toppliðinu færi á að vinna leik eftir leik. Við viljum ekki missa þá of langt frá okkur. Við verðum að vinna því það munar sex eða átta stigum á okkur og Chelsea. Við verðum að minnka það bil,“ sagði Fernandinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert