West Ham þriðja liðið til að vinna Liverpool

Diafra Sakho fagnar með félögum sínum eftir frábært mark sem …
Diafra Sakho fagnar með félögum sínum eftir frábært mark sem hann skoraði í dag. AFP

West Ham vann góðan sigur á Liverpool, 3:1, á heimavelli sínum Boleyn Ground í Lundúnum í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

West Ham fékk draumabyrjun en liðið komst í 2:0 á fyrstu sjö mínútunum. Fyrst skoraði Winston Reid með skalla eftir vel útfærða aukaspyrnu og svo Diafra Sakho með frábæru skoti yfir Simon Mignolet markvörð Liverpool.

Raheem Sterling minnkaði muninn með sannkölluðum þrumufleyg á 26. mínútu en Liverpool komst þó aldrei almennilega í gang í leiknum. Liðinu gekk illa að skapa sér færi til að jafna metin í seinni hálfleik og að lokum innsiglaði varamaðurinn Morgan Amalfitano sigur Hamranna með marki eftir sendingu frá Stewart Downing í kjölfar mistaka Mamadou Sakho.

West Ham komst því í 8. sæti og er með 7 stig en Liverpool er með 6 stig eftir að hafa tapað þremur af fyrstu fimm leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert