Lampard: Blendnar tilfinningar

Frank Lampard þakkar fyrir sig eftir leik Manchester City og …
Frank Lampard þakkar fyrir sig eftir leik Manchester City og Chelsea í dag. AFP

„Þetta var mjög erfitt fyrir mig. Það hefði samt verið ófaglegt af mér ef ég hefði ekki unnið mína vinnu inni á vellinum, þannig að ég reyndi að koma mér inn á vítateiginn og náði að skora eftir frábæra sendingu frá Milner,“ sagði Frank Lampard í viðtali við Sky Sports í dag eftir að hann skoraði jöfnunarmark Manchester City gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag í leik sem lauk 1:1.

„Auðvitað var þetta erfitt fyrir mig. Ég spilaði í frábær 13 ár fyrir stuðningsmenn Chelsea, þannig það var blendin tilfinning að spila gegn Chelsea. En ég er að sjálfsögðu ánægður með að liðið sem ég spila fyrir í dag skyldi fá stig út úr leiknum,“ sagði Lampard.

Frank Lampard kom inn á sem varamaður á 77. mínútu þegar City var manni færri og undir 1:0. Lampard skoraði svo jöfnunarmarkið fimm mínútum fyrir leikslok, eða eftir að hann hafði verið inn á vellinum í um átta mínútur. 

„Ég er eiginlega orðlaus. Ég bjóst ekki við því að koma inn á og skora. Þegar ég kom inn á sungu stuðningsmenn Chelsea lofsöngva um mig, þannig að ég átti hálf erfitt með mig fyrst. Svo ákvað ég að einbeita mér að því að ég væri að spila fyrir City núna og þar hefur mér verið tekið svo vel. Þannig að ég er alveg milli steins og sleggju í þessu öllu saman hvað þennan leik varðar,“ sagði Lampard.

Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, sagðist ekki hafa hugsað sig um tvisvar að tefla Lampard fram gegn Chelsea í dag. „Ég spurði hann hvort hann vildi taka þátt í leiknum og að sjálfsögðu vildi hann það. Þetta sýnir bara hversu mikill atvinnumaður Lampard er. Ég er viss um að hann var ekkert endilega kátur með að skora gegn liði sem er honum svona mikilvægt, en hann er algjör fagmaður, og frábær leikmaður,“ sagði Pellegrini við Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert