Mourinho tekur sénsinn með Costa

Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er á nokkurs vafa leikur Manchester City og Chelsea í dag klukkan 15.00. Spænski framherjinn Diego Costa hefur farið á kostum með Chelsea í upphafi leiktíðar og hefur skorað 7 mörk í fyrstu 4 deildarleikjum Chelsea í haust, þrátt fyrir að vera hálf meiddur aftan í læri. Af þeim sökum ákvað Mourinho að hvíla Costa gegn Schalke í Meistaradeild Evrópu í vikunni.

„Ástandið á Diego er ekki eins og best verður á kosið, en hann verður samt í byrjunarliðinu hjá okkur í dag,“ sagði José Mourinho við enska blaðamenn fyrir stórleikinn gegn City í dag.

„Hann mun spila þennan leik, en þá getur hann ekki spilað líka næsta leik sem verður gegn Bolton [í deildabikarnum á miðvikudag]. Málið er bara svona einfalt. Ég er samt meðvitaður um það að við þurfum að reyna að passa upp á hann svo hann nái einhvern tímann að hrista þessi meiðsli algjörlega af sér,“ sagði Mourinho.

Frank Lampard sem lék 648 leiki fyrir Chelsea gæti tekið einhvern þátt í leiknum í dag fyrir Manchester City.  City verður án Fernando og framherjans Stevan Jovetic í dag sem eru meiddir. Pablo Zabaleta ætti hins vegar að koma inn í lið City á ný eftir að hafa tekið út leikbann í Meistaradeildinni í vikunni.

Leikur Manchester City og Chelsea hefst klukkan 15.00 í dag. Alls eru fjórir leikir á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í dag og verður fylgst með ganga mála í þeim hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert