Debuchy úr leik fram að jólum

Mathieu Debuchy liggur eftir að hafa meiðst í leiknum gegn …
Mathieu Debuchy liggur eftir að hafa meiðst í leiknum gegn Manchester City. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur staðfest að bakvörðurinn Mathieu Debuchy verði frá keppni næstu þrjá mánuðina eða svo eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna ökklameiðsla á föstudaginn.

Frá þessu greinir London Evening Standard. Blaðið vitnaði í Wenger sem sagði allt hafa gengið vel í aðgerðinni en að Debuchy yrði frá keppni í þrjá mánuði eða svo, þó að hugsanlegt sé að viku skeiki til eða frá.

Debuchy, sem kom til Arsenal frá Newcastle í sumar, meiddist í leik Arsenal og Manchester City 13. september. Það kemur í hlut Calum Chambers að leysa hann af hólmi samkvæmt Wenger.

„Þetta er áfall en við vitum ekki fyrr en eftir á hversu mikið áfall þetta er því það veltur á því hvernig við fyllum í skarðið. Við keyptum Chamers til þess,“ sagði Wenger.

Frakkinn staðfesti einnig að Nacho Monreal myndi missa af næstu fjórum leikjum vegna bakmeiðsla. Yaya Sanogo, Theo Walcott og Serge Gnabry eru einnig meiddir en ættu allir að hafa snúið aftur til æfinga af fullum krafti eftir landsleikjahléið í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert