Liverpool áfram eftir 30 vítaspyrnur

Leikmenn Liverpool fagna marki Suso í framlengingunni í kvöld.
Leikmenn Liverpool fagna marki Suso í framlengingunni í kvöld. AFP

Liverpool komst í kvöld í sextán liða úrslit enska deildabikarsins í knattspyrnu en þurfti framlengingu og hvorki fleiri né færri en 30 umferða vítaspyrnukeppni til að sigra B-deildarliðið Middlesbrough á Anfield.

Nýliðinn Jordan Rossiter kom Liverpool yfir strax á 10. mínútu en Adam Reach jafnaði fyrir Middlesbrough á 63. mínútu. Þar við sat í venjulegum leiktíma en Suso skoraði með hörkuskoti, 2:1, þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik framlengingar. Patrick Bamford jafnaði fyrir Middlesbrough úr vítaspyrnu sem dæmd var á Kolo Touré í uppbótartíma framlengingarinnar, 2:2.

Þá kom að vítaspyrnukeppninni og þar þurfti 15 umferðir til að knýja fram úrslit. Simon Mignolet hjá Liverpool og Jamal Blackman hjá Middlesborough vörðu eina spyrnu hvor í fyrstu fimm umferðunum, en síðan var bráðabani þar sem allir leikmenn skoruðu samfellt í níu umferðir, þar á meðal báðir markverðirnir.

Fjórir leikmenn höfðu þegar spyrnt í annarri umferð þegar Albert Adomah brást bogalistin í 15. spyrnu Middlesbrough, skaut í stöngina og útaf, og leikmenn Liverpool gátu fagnað.

Þar með voru það Liverpool, Fulham, Swansea, Southampton, Bournemouth, Derby, Sheffield United, MK Dons, Shrewsbury og Stoke sem komust áfram í kvöld. Síðustu sex leikirnir í 32ja liða úrslitunum fara fram annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert