Slade verður nýi stjóri Arons

Aron Einar Gunnarsson er að fá nýjan knattspyrnustjóra.
Aron Einar Gunnarsson er að fá nýjan knattspyrnustjóra. mbl.is/Golli

Vincent Tan eigandi Cardiff City segir að Russell Slade, fyrrverandi knattspyrnustjóri Leyton Orient, verði næsti stjóri Cardiff þrátt fyrir að enn standi yfir deilur á milli félaganna vegna málsins.

Orient hafnaði beiðni Cardiff um að ræða við Slade sem hafði verið stjóri félagsins frá árinu 2010. Slade lýsti yfir óánægju sinni með það og sagði síðan upp fyrir síðustu helgi. Lögfræðingar Cardiff vinna nú að samkomulagi við kollega sína hjá Orient vegna málsins, svo að C-deildarfélagið fái viðeigandi bætur.

„Við eigum í smávægilegu vandamáli með Leyton Orient en það er verið að ráða fram úr því,“ sagði Tan við BBC. „Russell hjálpar okkur sem ráðgjafi þar til að búið er að ráða fram úr samningsmálum hans. Þá getum við formlega ráðið hann,“ sagði Tan.

Verði af ráðningunni mun Slade því taka við af Ole Gunnar Solskjær sem var rekinn fyrr í mánuðinum. Tan kveðst vonast til að Slade verði lengi hjá Cardiff, og slái Frakkanum Arsene Wenger við sem hefur verið með Arsenal í 18 ár.

„Ég vona að Russell Slade slái metið hjá Arsene Wenger,“ sagði Tan. Það myndi þýða að Slade yrði með Cardiff þar til hann yrði 71 árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert