Rodgers: Linir og gáfum ódýrt mark

Brendan Rodgers ræðir við Paulo Sousa þjálfara Basel í leiknum …
Brendan Rodgers ræðir við Paulo Sousa þjálfara Basel í leiknum í kvöld. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool sagði aftir ósigurinn gegn Basel, 1:0, í Meistaradeild Evrópu í kvöld að sínir menn hefðu verið alltof linir framan af leiknum, og síðan fengið á sig afar ódýrt mark.

„Markið var alltof ódýrt og mikil vonbrigði að sjá boltann fara í netið eftir alla þá vinnu sem við höfum lagt í það á æfingasvæðinu að verjast föstum leikatriðum. Við komumst aldrei í gang fyrstu 25 mínúturnar, vorum of linir, misstum boltann of auðveldlega og náðum ekki að tengja okkar spil. Síðan komumst við smám saman inní leikinn og vorum sennilega betri aðilinn, fórum að spila boltanum betur og skapa færi," sagði Rodgers  við vef Liverpool.

„Við byrjuðum seinni hálfleikinn vel og vorum nærri því að skora, en þá fengum við þetta mark á okkur og slík staða er erfið á útivelli. Við mættum liði sem hefur náð frábærum úrslitum gegn enskum mótherjum. En við höfðum algjörlega í hendi okkar að fá að minnsta kosti eitt stig útúr leiknum," sagði Rodgers.

Liverpool á nú framundan tvo leiki við Evrópumeistara Real Madrid, heima og heiman.

„Það var alltaf ljóst að þetta yrði barátta fram í siðasta leik og vitum vel að næstu tveir leikir verða geysilega erfiðir. En okkar markmið er sem fyrr að komast áfram og fara í úrsláttarkeppnina og að því einbeitum við okkur," sagði Brendan Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert