Rodgers: Sturridge ekki tilbúinn í landsleiki

Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Daniel Sturridge verði ekki tilbúinn til að spila með enska landsliðinu gegn San Marínó og Eistlandi um aðra helgi, jafnvel þótt hann kæmi við sögu í leik Liverpool og WBA á laugardaginn kemur.

Sturridge hefur verið frá keppni síðan hann tognaði á landsliðsæfingu Englands fyrir fjórum vikum og Rodgers hefur gagnrýnt forráðamenn landsliðsins fyrir að gæta ekki nægilega vel að leikmanninum.

„Hvort sem hann verður í hópnum gegn WBA eða ekki, þá verður hann ekki klár fyrir landsleikina. Við vonumst til þess að hann geti æft á fimmtudaginn og komi til greina í hópinn á laugardag. En þegar um er að ræða að vera tilbúinn til að spila landsleik, þá er hann ekki í standi til þess enn sem komið er," sagði Rodgers í gær og kvaðst hafa rætt málið við Roy Hodgson landsliðsþjálfara.

Hodgson hefur hinsvegar fullan rétt á að kalla leikmanninn til æfinga og láta skoða ástand hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert