Goðsögnin óánægður með Balotelli

Mario Balotelli í leiknum gegn QPR í dag.
Mario Balotelli í leiknum gegn QPR í dag. AFP

Jimmy Case, goðsögn í liði Liverpool, er ekki hrifinn af ítalska framherjanum Mario Balotelli frekar en margir stuðningsmenn félagsins.

Balotelli hefur enn ekki tekist að skora fyrir Liverpool í deildinni en félagið keypti hann í sumar frá AC Milan fyrir 16 milljónir punda.

„Til að vera fullkomlega heiðarlegur þá er Mario Balotelli að taka pláss frá öðrum sem ætti að vera í liðinu. Hann er bara ekki liðsmaður,“ sagði Case, sem sá Balotelli brenna af úr tveimur dauðafærum í 3:2-heppnissigri Liverpool gegn QPR á Loftus Road í dag.

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool kemur Balotelli til varnar:

„Þetta mun detta fyrir strákinn. Það mikilvægasta fyrir mig er að hann er vinnusamur. Hann er gera sitt besta og vinnur gríðarlega vel en hlutirnir falla ekki með honum,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert