Fellaini skoraði í jafntefli við WBA

Marouane Fellaini og Daley Blind skoruðu báðir í kvöld og …
Marouane Fellaini og Daley Blind skoruðu báðir í kvöld og fagna hér marki. AFP

Hollendingurinn Daly Blind tryggði Manchester United 2:2-jafntefli við West Bromwich Albion á The Hawthorns í kvöld, í lokaleik 8. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Blind skoraði örfáum mínútum fyrir leikslok með hnitmiðuðu skoti af vítateigslínunni og jafnaði metin í 2:2. United freistaði þess að tryggja sér sigurinn í lokin en hafði ekki erindi sem erfiði.

WBA komst tvívegis yfir í leiknum. Stéphane Sessegnon skoraði glæsilegt mark á 9. mínútu, með viðstöðulausu skoti efst í hægra hornið, og staðan var 1:0 í hálfleik.
Marouane Fellaini kom inná sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks, fyrir Ander Herrera, og skoraði skömmu síðar sitt fyrsta mark fyrir United. Markið var afar laglegt en Fellaini tók við sendingu Angel di María með brjóstkassanum, losaði sig við varnarmann og þrumaði boltanum í hægra hornið.

Saido Berahino kom WBA yfir á nýjan leik þegar hann slapp aleinn í gegnum vörn United á 66. mínútu og kláraði færið sitt frábærlega. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að láta það verða sigurmarkið en náðu ekki að halda út og niðurstaðan varð jafntefli.

United er með 12 stig í 6. sæti deildarinnar, stigi á eftir West Ham og Liverpool, en WBA er með 9 stig í 14. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert