Pellegrini argur: Níu stig í pottinum

Manuel Pellegrini gengur ekki vel með Manchester City í Meistaradeildinni.
Manuel Pellegrini gengur ekki vel með Manchester City í Meistaradeildinni. AFP

Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City svaraði þurrlega spurningum fréttamanns Sky Sports eftir 2:2-jafnteflið við CSKA Moskvu í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Hann sagði City vel geta komist upp úr sínum riðli þrátt fyrir að hafa aðeins tvö stig eftir þrjá leiki.

City komst í 2:0 í leiknum í Rússlandi í dag en CSKA jafnaði metin rétt fyrir leikslok. Aðspurður hvernig City hefði misst forskot sitt niður svaraði Pellegrini:

„Fótboltaleikur er 95 mínútur. Við lékum mjög vel í fyrri hálfleik, skoruðum tvö mörk og hefðum alveg getað skorað 2-3 til viðbótar en gerðum það ekki. CSKA-menn eru með gott lið og ef við gefum þeim pláss þá eru þeir hættulegir.“

Jöfnunarmark CSKA kom úr vítaspyrnu en Pellegrini vildi sem minnst um vítaspyrnudóminn tala.

„Við hreyfðum boltann ekki nægilega hratt á milli okkar í seinni hálfleik og sköpuðum því ekki færi eins og í fyrri hálfleik. Þeir skoruðu úr vítaspyrnu sem dómarinn dæmdi, en ég vil ekki tala meira um það.“

City þarf líklega að vinna alla þrjá leiki sína sem liðið á eftir til að eiga möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslitin, en Pellegrini vildi ekki meina að liðið væri nú minni máttar í baráttunn við Bayern München og Roma.

„Af hverju? Það eru níu stig enn í pottinum og við skulum sjá hvaða lið hafa flest stig í lokin,“ sagði Pellegrini, og kvaðst sannfærður um að City kæmist áfram: „Að sjálfsögðu,“ sagði Pellegrini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert