Mourinho: Eitt stig ekki nóg á Old Trafford

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segist ekki verða sáttur við eitt stig á sunnudaginn þegar lið hans sækir Manchester United heim í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

„Við förum í alla leiki til að sigra. Við förum í leikinn á sunnudaginn til að sigra. Ef mér væri boðið eitt stig í dag myndi ég ekki sætta mig við það. Ég vil berjast fyrir öllum þremur. En stundum er þó jákvætt að fá eitt stig.

En ég hugleiði það ekki einu sinni, frá fyrstu mínútu leiksins á sunnudaginn munum við gera allt sem við getum til að sigra. Kannski verður viðhorfið annað ef staðan verður jöfn rétt fyrir leikslok en þrjú stigin eru markmiðið,“ sagði Mourinho á fréttamannafundi í hádeginu.

Á Old Trafford hittir Mourinho gamlan yfirmann sinn, Louis van Gaal, en þegar Portúgalinn var ungur aðstoðarþjálfari hjá Barcelona var Hollendingurinn aðalþjálfari liðsins.

„Hann hafði mikið að segja fyrir mig, hann gaf mér tækifæri til að halda áfram störfum í fremstu röð. Ég var ungur þjálfari og að vinna í þrjú ár með Bobby Robson og síðan eitt ár með Louis, hjá félagi á borð við Barcelona, var mér ákaflega dýrmætt. Ef ég á að nefna þá sem hafa heft mest áhrif á mig á mínum ferli, þá er Louis í þeim hópi. Ég mun aldrei fela þá virðingu sem ég ber fyrir honum, né draga úr mikilvægi hans á mínum ferli. En núna er hann andstæðingur minn,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert