Styttist í endurkomu Carrolls

Andy Carroll í leik með West Ham.
Andy Carroll í leik með West Ham. AFP

Sóknarmaðurinn Andy Carroll gæti byrjað að spila með West Ham á ný eftir tvær til þrjár vikur, að sögn Sams Allardyce, knattspyrnustjóra félagsins.

Carroll hefur verið með eindæmum óheppinn með meiðsli frá því félagið fékk hann frá Liverpool en á 16 mánuðum hefur hann aðeins náð að vera í byrjunarliði West Ham í 12 leikjum. Núna er hann að komast í gang aftur eftir að hafa rifið liðband í ökkla í æfingaferð liðsins til Nýja-Sjálands í sumar.

„Þetta er búin að vera löng og grýtt leið hjá Andy og hann hefur heldur betur fengið sinn skerf af mótlæti. Vonandi á hann eftir að láta verulega til sín taka þegar hann byrjar að spila á ný. Við reynum að koma honum í gegnum þrjá til fjóra æfingaleiki og ef það gengur upp er mögulegt að hann fari að spila með okkur eftir tvær til þrjár vikur,“ sagði Allardyce við BBC en Carroll er byrjaður að æfa með liðinu á ný.

West Ham hefur farið mjög vel af stað á þessu tímabili og er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir átta umferðir með 13 stig, með stórliðin Liverpool, Manchester United og Arsenal í næstu sætum á eftir sér.

West Ham keypti Carroll af Liverpool fyrir 15 milljónir punda eftir að hafa fengið hann lánaðan til að byrja með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert