Bony: Gylfi getur alltaf komið boltanum á mig

Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið að flestum mörkum Swansea í …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið að flestum mörkum Swansea í vetur. Ljósmynd/Swanseacity.net

Gylfi Þór Sigurðsson fór meiddur af velli í 2:0-sigri Swansea á Leicester í dag en sagði við Sky Sports eftir leikinn að meiðslin væru ekki alvarleg. Hann náði að búa til bæði mörk Swansea áður en honum var skipt af leikvelli.

Búið var að undirbúa skiptingu Gylfa áður en hann bjó til seinna markið sem Wilfried Bony skoraði á 57. mínútu.

„Ég fann aðeins til í náranum snemma leiks, raunar áður en leikurinn hófst. Það var gott að ná þessu marki rétt fyrir skiptinguna,“ sagði Gylfi sem virðist ná afar vel saman við Bony.

„Já, við skiljum hvorn annan vel. Það er auðvelt að ná saman við góða leikmenn. Þetta var góður sigur fyrir okkur eftir að úrslitin höfðu ekki alveg fallið með okkur að undanförnu,“ sagði Gylfi.

Bony var valinn maður leiksins og hann er þakklátur fyrir að hafa Gylfa sem samherja.

„Hann er með mjög mikla tækni og getur alltaf komið boltanum til mín, með hvaða hætti sem er. Hann veit hvernig ég spila,“ sagði Bony, sem var ekkert að kippa sér upp við það að vera skipt af leikvelli þegar hann hafði tækifæri til að fullkomna þrennuna.

„Ég var svolítið þreyttur og er ekkert 100%. Ég vil bara komast í mitt besta stand,“ sagði Fílabeinsstrendingurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert