Eiður spilar einn eða tvo leiki

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eva Björk

Eiður Smári Guðjohnsen mun spila einn eða tvo æfingaleiki með Bolton Wanderers á næstu dögum, áður en Neil Lennon, knattspyrnustjóri félagsins, tekur ákvörðun um hvort honum verði boðinn samningur.

Eiður hefur æft með Bolton að undanförnu eins og fram hefur komið en hann er samningslaus og gæti  byrjað að spila með liðinu hvenær sem er, ef um semst.

„Við vonum til þess að geta látið hann taka þátt í tveimur æfingaleikjum, jafnvel leik með varaliðinu, á næstu 7-10 dögunum. Ég get ekki sagt til um hvernig Eiði líður en hann lítur vel út, hefur æft vel og er í góðu formi. Hann er með þennan neista sem þarf og hefur mikinn metnað fyrir því að spila aftur á Englandi," sagði Lennon við Bolton News í dag.

„Þegar við fengum hringingu í síðustu viku um að hann vildi koma, þurftum við ekki að hugsa okkur um tvisvar um að  gefa honum tækifæri. Og nú sjáum við til hvernig þetta þróast. Það sést á æfingum að hann er gæðaleikmaður, en framhaldið ræðst af heildar líkamsástandi hans, geri ég ráð fyrir. Við höfum séð hann á æfingum og þar lítur hann vel út, en ég vil sjá til hans á stærra sviði. En miðað við það sem ég hef séð hef ég ekki miklar áhyggjur," sagði Lennon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert