Rooney: Rétt hjá Welbeck að fara

Samherjar á þriðjudaginn með enska landsliðinu en mótherjar á morgun, …
Samherjar á þriðjudaginn með enska landsliðinu en mótherjar á morgun, Wayne Rooney og Danny Welbeck. AFP

Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, segir að það sé skrýtið að sjá Danny Welbeck klæðast Arsenal-treyjunni en hann segir að samherji sinn með enska landsliðinu hafi gert rétt með því að ganga í raðir Lundúnaliðsins frá United í sumar.

Welbeck mætir sínum gömlu félögum á morgun en hann hafði vistaskipti á lokadegi félagaskiptagluggans.

„Það er auðvitað skrýtið að sjá hann í Arsenal því hann hefur verið í Manchester United allan sinn feril. Hann er Manchester-strákur en þetta er fótboltinn í dag og menn færast á milli liða,“ sagði Rooney við MUTV-sjónvarpið.

„Ég held að fyrir Danny og hans feril hafi þetta líklega verið best fyrir hann að fara til Arsenal. Hann hefur staðið sig mjög vel, hefur skorað nokkur mörk og spilað vel. Hann leggur sig ávallt fram fyrir liðið. Stundum, eins og ég hef sagt við hann, vinnur hann of mikið en hann skorar mörk og honum gengur vel,“ sagði Rooney.

Arsenal og United mætast á Emirates klukkan 17.30 annað kvöld.

„Þetta verður erfiður leikur enda er lið Arsenal vel mannað og þegar það kemst í gírinn er erfitt við það að eiga. Við þurfum toppleik til að fá eitthvað út úr þessum leik,“ sagði Rooney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert