Rodgers: Get aðeins gert mitt besta

Pressan er að aukast á Brendan Rodgers.
Pressan er að aukast á Brendan Rodgers. AFP

„Ég er ekki svo hrokafullur að halda að ég starfi áfram sama hvað gerist. Maður verður að vinna leiki og ná góðum úrslitum,“ sagði Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool, aðspurður um framtíð sína hjá félaginu eftir tapið gegn Crystal Palace í dag.

Liverpool hefur aðeins náð í 14 stig í fyrstu 12 leikjum tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni og ekki byrjað verr síðan árið 1992.

„Ég á í frábæru sambandi við eigendurna, við erum opinskáir og hreinskilnir hver við annan. Ég veit að við verðum að ná góðum úrslitum og sýna betri frammistöðu. Eigendurnir verða að sjá að leikur okkar sé að þróast, og við höfum þróast mjög vel og hratt. Ég get aðeins gert mitt besta. Ég verð að berjast enn betur og axla mína ábyrgð,“ sagði Rodgers.

„Sjálfstraustið er lítið og við verðum að finna einhverja leið. Þetta er nýtt skeið, mikið af leikjum og mun minni tími til undirbúnings. Við getum ekki kvartað. Við verðum að finna leið til að landa sigrum og sýna hina réttu stærð og kraft félagsins. Við verðum að fara aftur í grunngildin,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert