Chelsea styrkti stöðuna án þess að spila

Shane Long hjá Southampton með boltann en Ciaran Clark hjá …
Shane Long hjá Southampton með boltann en Ciaran Clark hjá Aston Villa reynir að stöðva hann. AFP

Aston Villa og Southampton skildu jöfn, 1:1, í síðasta leiknum í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í kvöld.

Southampton er sem fyrr í 2. sæti deildarinnar en er nú sex stigum á eftir toppliði Chelsea sem styrkti því enn stöðu sína í kvöld.

Aston Villa fór uppfyrir Hull og í 16. sæti deildarinnar með 12 stig en liðið hefur nú leikið átta leiki í röð án þess að vinna.

Gabriel Agbonlahor kom Aston Villa yfir á 29. mínútu leiksins en Nathaniel Clyne jafnaði fyrir Southampton á 81. mínútu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. Leik lokið með jafntefli.

81. MARK - 1:1. Southampton er búið að jafna. Ryan Bertrand, vinstri bakvörður, kemst inní vítateiginn vinstra megin og rennir boltanum yfir til hægri þar sem hægri bakvörðurinn, Nathaniel Clyne, kemur á ferðinni og þrumar boltanum í netið.

76. Aston Villa heldur enn fengnum hlut en Southampton hefur sótt með síauknum þunga í seinni hálfleiknum.

46. Seinni hálfleikur er hafinn á Villa Park.

45. Hálfleikur og Aston Villa er með forystu, 1:0, gegn liðinu í öðru sæti deildarinnar.

29. MARK - 1:0. Þetta er óvænt, og gerði ekki boð á undan sér! Löng sending fram, Fraser Forster markvörður Southampton misreiknar sig illilega þegar hann hleypur út úr vítateignum. Gabriel Agbonlahor er á undan honum í boltann og sendir hann síðan í tómt markið!

1. Leikurinn er hafinn á Villa Park þar sem í kvöld er haldið uppá 140 ára afmæli félagsins en Aston Villa var stofnað árið 1874. Aðeins eitt úrvalsdeildarfélag, Stoke City, er eldra en það var stofnað árið 1863.

Southampton er í 2. sæti deildarinnar með 25 stig, sjö stigum á eftir toppliði Chelsea en stigi á undan meisturum Manchester City, og hefur fengið á sig fæst mörk allra liða, 5 talsins. Aston Villa er hinsvegar í 17. sæti með 11 stig og hefur skorað fæst mörk allra liða, 5 talsins.

Aston Villa: Guzan, Hutton, Okore, Clark, Cissokho, Cleverley, Westwood, Sanchez, N'Zogbia, Agbonlahor, Weimann.
Varamenn: Bacuna, Cole, Richardson, Bent, Given, Lowton, Grealish.

Southampton: Forster, Clyne, Fonte, Alderweireld, Bertrand, Tadic, Wanyama, Schneiderlin, Long, Pelle, Mane.
Varamenn: Kelvin Davis, Yoshida, Gardos, Cork, Mayuka, Reed, Targett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert