Spilað á rugbyvelli í úrvalsdeildinni?

Brentford gæti spilað heimaleiki sína í úrvalsdeildinni á rugby-leikvanginum Twickenham …
Brentford gæti spilað heimaleiki sína í úrvalsdeildinni á rugby-leikvanginum Twickenham en hann rúmar 82 þúsund áhorfendur. AFP

Óvænt framganga nýliða Brentford í ensku B-deildinni í knattspyrnu það sem af er tímabilinu hefur sett pressu á forráðamenn félagsins um að kanna hvar liðið myndi spila ef það færi alla leið upp í úrvalsdeildina í vor.

Brentford er frá vesturhluta London og hefur lengst af spilað í neðri deildunum. Heimavöllur félagsins, Griffin Park, þyrfti miklar endurbætur til að félagið fengi að nota hann í úrvalsdeildinni, og því er nú komin í gang skoðun á því hvort myndi borga sig að gera hann upp eða fá leigða aðstöðu á öðrum velli í London.

Sex löglegir vellir eru í innan við 10 mílna fjarlægð frá Griffin Park og kæmu því allir til greina. Þar á meðal er sjálfur Wembley, þjóðarleikvangurinn, og Twickenham, þjóðarleikvangur rugbymanna, en langstyst yrði fyrir stuðningsmenn Brentford að fara á síðarnefnda völlinn. Í Twickenham eru reyndar  tveir löglegir vellir.

Loftus Road, völlur QPR, er ekki langt undan og sama er að segja um Craven Cottage hjá Fulham og Stamford Bridge hjá Chelsea.

Brentford er nú í fimmta sæti B-deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliðinu Derby og aðeins stigi á eftir Bournemouth sem er í öðru sæti. Það er því alveg raunhæft fyrir stuðningsmenn félagsins að láta sig dreyma um að mæta Chelsea, Arsenal, Liverpool og Manchester United á næsta tímabili en spurningin er þá hvar þeir leikir færu fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert