Viljum ljúka þessu af

José Mourinho með sína menn á æfingu í London í …
José Mourinho með sína menn á æfingu í London í morgun. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, leggur áherslu á að lið sitt knýi fram sigur gegn Schalke í Þýskalandi annað kvöld og tryggi sér strax sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Chelsea á tvo leiki eftir, er efst í sínum riðli, og nægir að vinna annan til að komast áfram. Chelsea er með 8 stig, Schalke 5, Sporting Lissabon 4 og Maribor 3 stig en síðasti leikur Chelsea verður gegn Sporting á heimavelli 10. desember.

„Við höfum tvo leiki til að tryggja okkur áfram en það væri best að ljúka því af á morgun. Við spilum svo þétt í desember að það væri mjög gott fyrir okkur að losna við að eiga allt undir í síðasta leiknum í riðlakeppninni og þurfa að vinna Sporting til að fara áfram," sagði Mourinho á fréttamannafundi í Þýskalandi í dag.

„Lið okkar er í þróun og það yrði mjög vont á þessu stigi að þurfa að fara í Evrópudeildina. Framfarirnar eru örari þegar þú spilar gegn þeim bestu. Það yrðu mikil vonbrigði að lenda í Evrópudeildinni," sagði Mourinho en liðið sem endar í þriðja sæti riðilsins fer í 32ja liða úrslit Evrópudeildar UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert