Dzeko ekki með gegn Southampton

Edin Dzeko er meiddur.
Edin Dzeko er meiddur. AFP

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, staðfesti í dag að framherjinn Edin Dzeko yrði ekki orðinn leikfær í tæka tíð fyrir stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni, þegar City heimsækir Southampton á sunnudaginn.

Á meiðslalistanum með Bosníumanninum eru sem fyrr þeir David Silva og Aleksandar Kolarov. „Allir aðrir eru heilir og tilbúnir. Það eru engin vandamál hjá David Silva, hann er á góðum batavegi," sagði Pellegrini og hrósaði liði Southampton sem er í 2. sæti, tveimur stigum fyrir ofan City.

„Þeir eru með gott lið og mjög góða leikmenn, og spila mjög vel. Staða þeirra kemur mér alls ekki á óvart. Ronald Koeman missti fjóra eða fimm leikmenn en liðið er samt sterkt og hann á hrós skilið fyrir það. Þetta verður erfiður leikur," sagði Pellegrini og kvaðst ánægður með baráttuhug sinna manna sem hafa knúið fram sigra í erfiðum leikjum síðustu daga.

„Við getum ekki kvartað yfir liðsandanum. Við vorum undir gegn Swansea og svöruðum tvisvar, og  gerðum það sama  gegn Bayern," sagði Pellegrini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert