Halda að ég verði rekinn

Brendan Rodgers á undir högg að sækja.
Brendan Rodgers á undir högg að sækja. AFP

„Fyrir nokkrum mánuðum var ég knattspyrnustjóri ársins en núna er ég líklegastur til þess að verða rekinn,“ sagði Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, á fréttamannafundi í dag.

Liverpool hefur gengið afleitlega á leiktíðinni og er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 14 stig eftir 12 umferðir. Þá er liðið í 3. sæti síns riðils í Meistaradeild Evrópu eftir jafntefli við Ludogorets í vikunni.

Liverpool tekur á móti Stoke á morgun en liðin sitja hlið við hlið í deildinni.

„Það var allt í góðu hjá okkur í 18 mánuði en við fengum annars konar spil úr stokknum á þessari leiktíð,“ sagði Rodgers í dag.

„Það sem gerðist áður er búið og gert, og þannig hefur þetta verið hjá okkur. Í íþróttum fær maður tækifæri til reyna aftur. Við náðum fínum úrslitum í vikunni gegn Ludogorets, áttum góðan leik, og við byggjum á því,“ sagði Rodgers.

„Veðmangarar telja að ég verði rekinn. Svona er fótboltinn. Fyrir nokkrum mánuðum var ég knattspyrnustjóri ársins en núna er ég líklegastur til þess að verða rekinn. Þetta fylgir því að starfa við fótboltann. Maður getur ekki annað gert en einbeita sér að sínu starfi og því sem maður hefur sjálfur stjórn á,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert