Hjálmurinn bjargaði okkur

Kurt Zouma liggur eftir að hafa skollið saman við Petr …
Kurt Zouma liggur eftir að hafa skollið saman við Petr Cech. AFP

Petr Cech, markvörður Chelsea, segir að verr hefði getað farið í gærkvöld þegar hann skall saman við liðsfélaga sinn, Kurt Zouma, ef Tékkinn hefði ekki verið með hjálminn sinn á höfðinu.

Cech hefur verið með hjálm í öllum leikjum eftir að hann brákaði höfuðkúpuna í leik gegn Reading árið 2006. Þeir Zouma skullu með höfuð sín saman í leiknum gegn Derby í deildabikarnum í gær og Zouma var borinn af velli.

„Ég hafði svolitlar áhyggjur því þetta var þungur árekstur. Ég held að við höfum verið heppnir að ég var með hjálminn því höggið hefði orðið mun þyngra,“ sagði Cech.

„Ég held að hjálmurinn hafi bjargað honum, og mér líka, því hann fór að mestu í hjálminn sem dró úr högginu,“ bætti tékkneski landsliðsmarkvörðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert