Taka Katarbúar við Tottenham?

Katarbúarnir eru orðaðir við Tottenham.
Katarbúarnir eru orðaðir við Tottenham. AFP

Íþróttamálaráðherra Katar, Salah bin Ghanem bin Nasser al-Ali, segir að Persaflóaríkið hafi mikinn áhuga á að kaupa enskt úrvalsdeildarfélag, eftir vel heppnuð kaup á franska félaginu París SG árið 2012.

Hann staðfesti við Associated Press að félag í ensku úrvalsdeildinni hefði haft samband við fulltrúa ríkisstjórnar Katar en enska götublaðið The Sun fullyrti í morgun að Katarbúar stefndu að yfirtöku á Tottenham Hotspur fyrir jafnvirði eins milljarðs punda.

„Já, við höfum áhuga á ensku úrvalsdeildarfélagi. Sjálfur er ég afar hrifinn af ensku úrvalsdeildinni. Ég hef átt búninga liðanna síðan ég var strákur. Ég segi ykkur ekki hvaða liði ég held með - einu sinni skýrði ég frá því og viðkomandi var fúll út í mig af því hann var stuðningsmaður Arsenal. En ég er hrifinn af treyjum Tottenham og átti tvær slíkar," sagði al-Ali.

Katarbúarnir hafa náð góðum árangri með París SG og al-Ali sagði að stefnan væri að gera slíkt hið sama á Englandi.

„Við í Katar erum virkilega góðir í því að taka eitthvað að okkur og gera það miklu, miklu betra. Við færum það upp á næsta þrep. Jafnvel þó það sé mjög gott fyrir, þá förum við með það áfram. París SG vann ekki meistaratitil í 20 ár áður en við komum þangað. Við virðum þá menningu sem er til staðar og setjum okkur inn í hugsunarhátt fólksins. Við höfum góða reynslu af enska fasteignamarkaðnum og þekkjum hvernig menn hugsa þar, þekkjum það virkilega vel, og erum alltaf að læra meira," sagði al-Ali ennfremur.

Einn böggull fylgir þó skammrifi. Ef Katarbúarnir eignast félag á Englandi er ljóst að það getur ekki leikið í Evrópukeppni á sama tíma og París SG. Samkvæmt reglum UEFA mega tvö félög í eigu sama aðila ekki taka þátt í sömu Evrópukeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert