Gylfi vill alls ekki missa Bony

Bony og Gylfi Þór fagna marki með Swansea.
Bony og Gylfi Þór fagna marki með Swansea. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson vonast til að Swansea haldi framherjanum Wilfried Bony en vaxandi áhugi liða er á framherjanum sem hefur skorað grimmt á árinu sem er að líða.

Bony hefur skorað átta mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og hann er markhæsti leikmaðurinn í deildinni á árinu 2014. Samvinna hans og Gylfa Þórs hefur verið sérlega góð en flest mörkin hefur Bony skorað eftir sendingar frá Gylfa.

„Wilfried er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Hann skorar mikið af mörkum og það stendur mikil ógn af honum. Ef hann fær marktækifæri þá nýtir hann níu af tíu. Hann er mjög líkamlega sterkur, er með góðar hreyfingar og tímasetur hlaup sín afar vel.

Allir hjá Swansea vonast til að hann verði áfram með liðinu og ég er sannfærður um að félagið yrði mjög ánægt ef það héldi honum fyrir næsta tímabil,“ segir Gylfi í viðtali við enska blaðið Manchester Evening News.

Ljóst er þó að Swansea missir Bony í janúar því hann verður með landsliði Fílabeinsstrandarinnar í Afríkukeppninni sem stendur yfir frá 17. janúar til 8. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert