Þrír markmenn og allir meiddir

Jak Alnwick reynir að grípa boltann í leiknum við Tottenham. …
Jak Alnwick reynir að grípa boltann í leiknum við Tottenham. Hann missti boltann og Tottenham skoraði fyrsta mark leiksins. AFP

Newcastle ætlar að sækja um undanþágu til að fá markvörð að láni eftir að Jak Alnwick meiddist í leik liðsins gegn Tottenham í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld.

Alnwick er þriðji markvörður Newcastle en bæði Tim Krul og Rob Elliot eru frá keppni vegna meiðsla. Alnwick meiddist á öxl í kvöld og þá hefur Alan Pardew knattspyrnustjóri bara 17 ára markvörð úr unglingaliðinu, Freddie Woodman, tiltækan. Woodman var varamarkvörður í kvöld.

„Það á ekki að vera hægt að krefjast þess að 17 ára piltur standi í marki í leik í úrvalsdeildinni," sagði Alan Pardew við BBC í kvöld. Lið hans hefur fengið á sig átta mörk í síðustu tveimur leikjum en Tottenham vann leikinn í kvöld, 4:0.

Ekki má skipta um félag fyrr en á nýársdag en Pardew vonast til þess að fá undanþágu vegna sérstakra kringumstæðna, fyrir leikinn gegn grönnunum í Sunderland næsta sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert