Var gerður að blóraböggli

Fellaini í baráttu við Philippe Coutinho í leik Manchester United …
Fellaini í baráttu við Philippe Coutinho í leik Manchester United og Liverpool um síðustu helgi. AFP

Marouane Fellaini, miðjumaðurinn stóri og stæðilegi í liði  Manchester United, segist hafa verið gerður að blóraböggli á hörmungarleiktíð United á síðasta ári vegna tengsla hans við David Moyes.

Fellani, sem United keypti frá Everton fyrir tímabilið í fyrra og greiddi fyrir hann 27 milljónir punda, átti erfitt uppdráttar með Manchester-liðinu á síðustu leiktíð og fékk svo sannarlega að heyra það frá stuðningsmönnum liðsins.

Á yfirstandandi tímabili hefur belgíski landsliðsmaðurinn heldur betur komið sterkur inn og hefur átt fast sæti í liðinu síðustu vikurnar undir stjórn Louis van Gaal en United hefur nú unnið sex deildarleiki í röð.

„Á síðasta tímabili lékum við ekki vel sem lið og það var auðvelt fyrir fólk utan félagsins að kenna mér um því stjórinn tók mig með sér frá Everton. En þetta var eitthvað sem ég þurfti að glíma við,“ segir Fellaini í viðtali við enska blaðið The Times.

„Þetta var erfiður tími því á öllum mínum ferli hef ég ekki upplifað eitthvað þessu líkt. Ég lærði mikið af þessu. Ég hugsa um það hvað fólk hefur að segja en áhyggjuefni mitt sneri að fjölskyldu minni, móður minni og föður og bræðrum mínum því þegar gagnrýnin snýst um að tala illa um mig þá er það mjög erfitt fyrir þau.“

Fellanini telur að United sé með í titilbaráttunni og hann hefur einnig trú á sínum gamla stjóra sem er nú við stjórnvölinn hjá Real Sociedad.

„Hann hafði ekki heppnina með sér þegar hann var við stjórnvölinn hjá United en það breytir ekki þeirri staðreynd að hann hefur gæðin til að ná árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert