Stórleikur tveggja liða í basli

Raheem Sterling hefur verið ljósasti punktur Liverpool að undanförnu og …
Raheem Sterling hefur verið ljósasti punktur Liverpool að undanförnu og skoraði tvö mörk í síðasta leik. AFP

Liverpool og Arsenal mætast í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í dag á Anfield en þar verður flautað til leiks klukkan 16. Segja má þó að það sé skrýtið að tala um stórleik á milli liða sem eru í sjöunda og ellefta sæti deildarinnar.

Miðað við stöðuna í deildinni mætti alveg eins fullyrða að leikur Southampton og Everton í gær hafi verið stórleikur helgarinnar. En þarna mætast að sjálfsögðu tvö af stærstu liðum deildarinnar enda þótt gengi þeirra beggja sé langt undir væntingum það sem af er tímabilinu.

Liverpool er sérstaklega í viðkvæmri stöðu, í ellefta sætinu, og er mun nær því að falla úr deildinni en að ná sæti í Meistaradeildinni. Liverpool er með 21 stig, aðeins sex stigum meira en Burnley sem er í fallsæti. West Ham, sem er í fjórða sætinu, er hinsvegar tíu stigum á undan Brendan Rodgers og hans mönnum.

Arsenal, sem er áskrifandi að sæti í Meistaradeildinni, er fimm stigum frá því eins og staðan er núna, en mætir þó til leiks með sjálfstraustið í lagi eftir átta mörk í tveimur leikjum í síðustu viku, gegn Newcastle og Galatasaray. Strákarnir hans Arsene Wengers eiga harma að hefna frá því í fyrra þegar þeir steinlágu, 5:1, fyrir Liverpool á Anfield. Þá var lið Liverpool hinsvegar margfalt beittara og beinskeyttara en um þessar mundir, með Luis Suárez og Daniel Sturridge í fantaformi. Nú er Suárez í Barcelona og Sturridge hefur ekki spilað síðan í ágúst vegna meiðsla. Fyrir vikið hefur Liverpool aðeins skorað 19 mörk í fyrstu 16 leikjum sínum.

Auk Sturridge verður Mario Balotelli fjarri góðu gamni en hann tekur út leikbann vegna ummæla á Instagram fyrir skömmu. Glen Johnson er meiddur og óvíst hvort Dejan Lovren spili vegna meiðsla.

Hjá Arsenal vantar Aaron Ramsey og Jack Wilshere, tvísýnt er um Alex Oxlade-Chamberlain, Nacho Monreal og Theo Walcott sem allir eru tæpir, en Calum Chambers snýr aftur eftir leikbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert