Skorar í öllum deildum

Charlie Austin.
Charlie Austin. AFP

Miðherji QPR, Charlie Austin, stal senunni í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og skoraði öll mörk QPR sem vann WBA 3:2 eftir að hafa lent 0:2 undir. Austin hafði fram að þessu fikrað sig hægt og hljóðlega upp listann yfir markahæstu menn deildarinnar.

Hann er nú með 11 mörk í deildinni en aðeins Sergio Aguero og Diego Costa hafa skorað meira. Líklega fá þeir einnig örlítið meira greitt fyrir sína vinnu en Austin sem er nýliði í ensku úrvalsdeildinni.

Charlie Austin er 25 ára gamall og ferilskrá hans er ekki beinlínis stútfull af nöfnum þekktra félagsliða. Fyrstu þrjú félögin sem Austin spilaði fyrir voru Kintbury Rovers, Hungerford Town og Poole Town. Er það ekki fyrr en hann fer til Swindon árið 2009 að maður fer að kannast við nafn vinnuveitendanna. Austin var hjá Burnley frá 2011 – 2013 og skoraði þar í öðrum hverjum leik að meðaltali.

Hann hefur verið í herbúðum QPR frá árinu 2013. Þar eru deildamörkin orðin 28 í 46 leikjum. Hann skoraði 20 mörk þegar QPR vann sér sæti í úrvalsdeildinni í vor og þrennan á laugardaginn var hans fyrsta í úrvalsdeildinni.

Verðmiðinn margfaldast

Þar sem Austin er einungis 25 ára gamall þá verður forvitnilegt að sjá hvernig ferill hans þróast næstu árin. Hann er 188 cm á hæð og mjög sterkur líkamlega. Mætti kannski segja að hann sé klassískur enskur miðherji. Austin hefur sannað að hann getur skorað mörk, hvort sem um er að ræða úrvalsdeildina, neðri deildirnar eða utandeildirnar.

Eigendur QPR eru væntanlega ánægðir með fjárfestinguna. Talið er að félagið hafi greitt í kringum 4 milljónir punda fyrir sóknarmanninn. Miðað við gangverðið á enskum leikmönnum sem eitthvað geta í úrvalsdeildinni þá myndu þeir margfalda þá upphæð ef Austin yrði seldur.

Í gamla útgerðarbænum Hull eru menn sjálfsagt vonsviknir. Hull City hafði nefnilega gengið frá samkomulagi um að kaupa Austin í júlí 2013 en hann stóðst ekki læknisskoðun. QPR samdi í framhaldinu við Austin hinn 1. ágúst 2013. Eigendur Hull City hafa líklega ekki boðið læknateyminu sínu á pöbbinn síðdegis á laugardaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert