Spila Eiður og Heskey saman á morgun?

Eiður Smári í búningi Bolton.
Eiður Smári í búningi Bolton. Ljósmynd/bwfc.co.uk

Menn bíða spenntir að sjá hvort Eiður Smári Guðjohnsen og Emile Heskey leiki saman í fyrsta skipti á morgun þegar Bolton tekur á móti Blackburn í ensku B-deildinni á morgun, annan dag jóla.

Heskey gerði samning við Bolton í gær sem gildir út tímabilið en ekki er langt síðan Eiður Smári gekk í raðir Bolton á nýjan leik.

Það býr engin smá reynsla í þeim Eiði og Heskey. Eiður er 35 ára gamall sem á að baki 73 landsleiki og hefur spilað með liðum á borð við Chelsea og Barcelona og Heskey er 36 ára gamall sem hefur leikið 62 leiki með enska landsliðinu og hefur spilað með liðum eins og Liverpool, Leicester og Aston Villa.

„Hann mun gera okkur betri svo ég þurfti ekkert að hugsa mun lengi um að semja við hann. Heskey hefur alvöru eiginleika. Hann er líkamlega sterkur, er góður á boltann og leikskilningur hans er enn í mjög háum gæðum. Það eru gæði í svona leikmönnum og hann er enn í mjög góðu líkamlegu ástandi miðað við aldurinn,“ segir Neil Lennon knattspyrnustjóri Bolton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert