„Gylfi er fæddur markaskorari“

Frammistaða Gylfa Þórs Sigurðssonar bæði með Swansea og íslenskla landsliðinu …
Frammistaða Gylfa Þórs Sigurðssonar bæði með Swansea og íslenskla landsliðinu hefur skiljanlega vakið mikla athygli. mbl.is/Golli

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, fær sína gömlu lærisveina í Swansea í heimsókn á Anfield á morgun þegar níu leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni.

„Við vitum að þetta verður erfiður leikur, en frammistaða okkar hefur verið að batna. Það er þétt spilað núna en viljinn og styrkurinn í hópnum er mikill,“ sagði Rodgers, en hann var knattspyrnustjóri Swansea á árunum 2010-2012. Núverandi stjóri liðsins er fyrrum fyrirliðinn Garry Monk.

„Ég og Gary Monk spjöllum reglulega og hann hefur staðið sig vel. Það kemur mér ekkert á óvart að þeir hafa verið að festa sig í sessi sem úrvalsdeildarlið. Leikmennirnir sem hann fékk hafa staðið sig vel og verið ógnandi,“ sagði Rodgers og minntist sérstaklega á Gylfa Þór Sigurðsson, en þeir þekkjast mjög vel frá fyrri tíð.

„Ég þekki Gylfa Sigurðsson mjög vel, ég setti hann ungan í liðið þegar ég var stjóri Reading. Síðar fékk ég hann á láni þegar ég var hjá Swansea og hann stóð sig mjög vel þegar við vorum saman í úrvalsdeildinni. Hann er náttúrulegur markaskorari, við höfum séð það eftir frammistöðu hans með landsliðinu. Hann og [Wilfried] Bony ná virkilega vel saman og vilja báðir skora mörk,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert