Segir Balotelli að rífa sig í gang

Mario Balotelli er ekki búinn að vera sannfærandi og er …
Mario Balotelli er ekki búinn að vera sannfærandi og er kominn með gula spjaldið hjá Brendan Rodgers. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur sent ítalska framherjanum Mario Balotelli skýr skilaboð um að hann þurfi að standa sig betur ætli hann sér að eiga framtíð hjá félaginu. Rodgers segir Balotelli ekki hafa verið nógu góðan á æfingum undanfarið til að fá að spila fyrir Liverpool.

Ferill Balotelli hjá Liverpool hefur nánast verið ein sorgarsaga eftir að hann var keyptur á 16 milljónir punda í sumar. Hann á enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni og var ekki einu sinni valinn í leikmannahópinn fyrir bikarleikinn gegn Eiði Smára Guðjohnsen og félögum í Bolton í gær.

„Hann veit nákvæmlega til hvers er ætlast af mönnum til að fá að vera í hóp hjá þessu félagi. Ég met menn frá degi til dags á æfingum og Mario er alveg eins og hver annar leikmaður. Það fær enginn sérmeðferð,“ sagði Rodgers eftir markalausa jafnteflið í gær, aðspurður um Balotelli.

Þá sagði Rodgers ennfremur að hann vonaðist til þess að enski framherjinn Daniel Sturridge sneri aftur gegn West Ham um næstu helgi, en hann hefur mikið verið frá vegna meiðsla það sem af er tímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert