Þetta eru mín bestu úrslit

Leikmenn Middlesbrough fagna ásamt stuðningsmönnum eftir að Kike skoraði seinna …
Leikmenn Middlesbrough fagna ásamt stuðningsmönnum eftir að Kike skoraði seinna markið gegn Manchester City. AFP

Frammstaða Bradford City gegn Chelsea skyggði nokkuð á önnur óvænt úrslit í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í gær en Middlesbrough gerði það heldur betur gott með því að sigra hið rándýra meistaralið Manchester City 2:0 á útivelli.

Patrick Bamford og Kike skoruðu fyrir Boro í seinni hálfleik og liðið er komið í 16-liða úrslitin. Aitor Karanka, knattspyrnustjóri Boro, sagði eftir leikinn að þetta væru hans bestu úrslit í starfi.

„Já, auðvitað. Ég hef verið stjóri í fjórtán mánuði og við vorum nálægt því að slá út Liverpool en vítaspyrnur felldu okkur. Núna unnum við lið sem er með einn besta leikmannahóp í hemi. Fyrir mig var þetta samskonar leikur og flestir í B-deildinni. Við sköpuðum okkur fullt af færum án þess að skora. Lengi vel minnti hann mig á slíka leiki en núna vorum við að spila við lið sem er í Meistaradeildinni svo við vissum að þetta yrði enn erfiðara,“ sagði Karanka sem er með lið sitt í toppbaráttu B-deildarinnar.

Mörg sterk lið eru fallin úr bikarnum en Karanka kvaðst ekki hugsa mikið um það. „Sigurinn var geysilega mikilvægur fyrir okkar stuðningsmenn og alla í félaginu en ég hugsa bara um næsta laugardag því okkar fyrsta markmið er að komast upp um deild og B-deildin er geysilega erfið. Strákarnir fá að njóta sigursins í dag og á morgn en frá og með æfingu á þriðjudaginn munum við bara hugsa um næstu mótherja, Brentford,“ sagði Karanka við Sky Sports.

Aitor Karanka er 41 árs gamall Spánverji sem lék með Athletic Bilbao og Real Madrid og spilaði einn landsleik fyrir Spán. Hann var aðstoðarstjóri Real Madrid frá 2010 til 2013, á meðan José Mourinho var þar við völd, en hvarf á braut um leið og hann og tók skömmu seinna við liði Middlesbrough.

Aitor Karanka fagnar sigri Middlesbrough í leikslok.
Aitor Karanka fagnar sigri Middlesbrough í leikslok. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert