Newcastle aftur á sigurbraut

Remy Cabella fagnar marki sínu í dag ásamt Sammy Ameobi …
Remy Cabella fagnar marki sínu í dag ásamt Sammy Ameobi sem skoraði einnig. AFP

Newcastle vann sinn fyrsta sigur á nýju ári þegar liðið gerði ansi góða ferð til Hull og unnu öruggan sigur á heimamönnum, 3:0, í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Fylgst var með gangi mála í  ENSKI BOLT­INN Í BEINNI hér á mbl.is. 

Hull sótti mikið í byrjun og Newcastle bjargaði á línu snemma leiks. Það var hins vegar Remy Cabella sem skoraði fyrsta markið undir lok fyrri hálfleiks þegar hann komst inn í sendingu varnarmanns og skoraði með þrumuskoti í hornið. 1:0 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik tvöfaldaði Sammy Ameobi forskot Newcastle, sömuleiðis eftir slæma sendingu í vörn Hull. Boltinn barst á Ameobi sem skaut að marki af 30 metra færi og í netið fór boltinn eftir eitt skopp á leiðinni. Það var svo Yoan Gouffran sem innsiglaði öruggan sigur Newcastle eftir flottan sprett rúmlega tíu mínútum fyrir leikslok. 

Þetta var fyrsti leikur Newcastle eftir að hafa formlega ráðið John Carver sem stjóra liðsins út tímabilið, en liðið er nú með 30 stig í 9.-10. sæti deildarinnar líkt og Swansea, en Hull er í fallsæti með 19 stig.

Fylgst er með gangi mála á Englandi í allan dag í ENSKI BOLT­INN Í BEINNI hér á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert