Bony skaut Fílabeinsströndinni í undanúrslit

Wilfried Bony fagnað eftir annað marka hans gegn Alsír í …
Wilfried Bony fagnað eftir annað marka hans gegn Alsír í kvöld. AFP

Fílabeinsströndin, Gana, Austur-Kongó og heimamenn í Miðbaugs-Gíneu leika í undanúrslitum Afríkumótsins í knattspyrnu á miðvikudag og fimmtudag.

Fílabeinsströndin var síðasta liðið til að komast í undanúrslitin en hún var rétt í þessu að leggja eitt af spútnikliðum síðasta heimsmeistaramóts, Alsír, að velli með þremur mörkum gegn einu. Wilfried Bony, sem nú er orðinn leikmaður Manchester City, skoraði tvö marka Fílabeinsstrandarinnar og Gervinho bætti við því þriðja á lokaandartökum leiksins.

Gana vann Gíneu 3:0 þar sem Christian Atsu, sem er lánsmaður hjá Everton frá Chelsea, skoraði tvö mörk. Miðbaugs-Gínea vann Túnis 2:1 í framlengdum leik í gær og Austur-Kongó vann Kongó 4:2.

Í undanúrslitunum mætast Austur-Kongó og Fílabeinsströndin á miðvikudag og Gana og Miðbaugs-Gínea á fimmtudag. Úrslitaleikurinn er svo næsta sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert