Fimm marka sigur Arsenal

Aston Villa mistókst að skora mark í sjötta deildarleiknum í röð þegar liðið tapaði illa fyrir Arsenal á Emirates-vellinum, 5:0, í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Arsenal var með leikinn í sínum höndum allan tímann. Olivir Giroud skorað snemma leiks eftir sendingu frá Mesut Özil og þeir höfðu svo hlutverkaskipti snemma í seinni hálfleik þegar Özil jók muninn í 2:0.

Theo Walcott bætti við þriðja markinu, Santi Cazorla því fjórða úr vítaspyrnu sem varamaðurinn ungi Chuba Akpom fiskaði og Héctor Bellerín því fimmta í uppbótartíma.

Arsenal er nú í 5. sæti með 42 stig, stigi á eftir Manchester United og jafnt Southampton að stigum en Southampton mætir Swansea kl. 16.

Villa setti félagsmet með því að ná ekki að skora í dag en liðið skoraði síðast í jafntefli við Manchester United hinn 20. desember. Liðið er í 16. sæti með 22 stig, þremur stigum frá fallsæti og ljóst að það er orðið heitt undir Paul Lambert, stjóra liðsins.

Fylgst var með gangi mála í leiknum í ENSKA BOLTANUM Í BEINNI þar sem einnig er fylgst með gangi mála hjá Southampton og Swansea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert